Hvað eru vélrænar þýðingar?
Vélrænar þýðingar á rituðu efni milli tungumála felast í notkun til þess gerðra tölvuforrita sem taka við texta á tilteknu tungumáli, frummálinu, og skila efni hans í samsvarandi texta á öðru tungumáli, viðtökumálinu eða markmálinu.
Ef forritið vinnur sjálfstætt án afskipta manna frá því að forritið tekur til starfa og þangað til það skilar niðurstöðu er talað um sjálfvirkar þýðingar. En meiri gæði nást að jafnaði í þýðingum með samspili tölvu og mannshugar. Það getur t.d. gerst með þeim hætti að tölvan varpar spurningu til notanda tölvunnar þegar álitamál kemur upp og bíður svars en heldur áfram vinnslu að því fengnu. Má þá tala um hálfsjálfvirkar þýðingar. Annar háttur er sá að tölva hráþýðir eða grófþýðir vélrænt en mannlegur þýðandi tekur síðan við niðurstöðunni, leiðréttir villur og lagar málfar. Og enn einn háttur er sá að forvinna textann áður en hann er vélþýddur þannig að þýðingarforritið ráði betur við þýðinguna en ella.
Vélrænar þýðingar eru eitt helsta viðfangsefni
tungutækni og tengjast flestum öðrum viðfangsefnum hennar.
Menn hófu rannsóknir og þróun á sviði
vélrænna þýðinga fyrir fimm áratugum
en framfarir hafa orðið mun hægari en menn gerðu sér
vonir um í upphafi. Erfiðasti þátturinn í
vélrænum þýðingum er merkingargreiningin,
þ.e. að láta forrit greina merkingu textans sem þýða
á, en gæði vélrænna þýðinga
eru mjög undir því komin hvernig til tekst um þennan
þátt. Tölvur munu aldrei leysa alveg af hólmi
mannlega þýðendur en þær geta nú þegar
flýtt fyrir og létt störf þýðenda verulega,
a.m.k. á afmörkuðum sviðum, ef skynsamlega er staðið
að málum. Á Íslandi hefur vélrænum
þýðingum lítið verið sinnt hingað til
nema í tómstundum áhugamanna.
Hvaða gagn er að vélrænum þýðingum?
Helstu kostir vélrænna þýðinga miðað við störf mannlegra þýðenda eru að tölva vinnur mun hraðar en maður og að með vélrænum þýðingum er auðveldara að gæta samræmis í þýðingunni.
Stundum getur nægt að fá óvandaða þýðingu
sem sýnir um hvað er fjallað án þess að
allt sé rétt þýtt. Og jafnframt getur skipt
meira máli að fá niðurstöðuna í hvelli
en að
þýðingin sé vönduð. Dæmi um
þýðingar af þessu tagi eru þær þýðingar
sem bjóðast ókeypis í leitarkerfinu AltaVista
milli nokkurra tungumála.
Vinnsluhraði í vélrænum þýðingum
getur skipt verulegu máli, þó að síðan
þurfi mannlega þýðendur til að lagfæra
niðurstöðuna og koma henni á vandað mál.
Kosturinn við vélrænu þýðinguna getur
þá skilað sér bæði sem fjárhagslegur
sparnaður vegna minni vinnu mannlegra þýðenda og í
því að þýðingarverkið tekur styttri
tíma í heild en ef eingöngu væri þýtt
handvirkt.
Hvað eru sérsniðnar vélrænar þýðingar?
Í mörgum tilvikum getur verið hagkvæmt að
sérsníða vélrænar þýðingar
fyrir tiltekin verkefni. Til dæmis getur verið um að ræða
að útbúa sérstaka orðalista áður
en þýðing hefst, þar sem tekið er tillit til
efnissviðs textans eða stíls. Með slíkum sérorðalista
má m.a. breyta vægi tiltekinna þýðinga á
margræðum orðum eða orðasamböndum og bæta
við hugtökum sem ekki eru til í grunnorðasafni þess
þýðingakerfis sem nota á. Ef mikið er um endurtekningar
kemur jafnvel til greina að taka með í sérorðalistann
heilar setningar eða setningabrot. Hvort hagkvæmt er að sérsníða
þýðingaraðferðina og þá á
hvern hátt ræðst af markmiðum, aðstæðum
og því hvers konar texta á að þýða.
Hvaða þýðingaraðferð á við hverju sinni?
Til þess að meta hvaða þýðingaraðferð á við fyrir tiltekið verkefni þarf að hafa í huga það sem lýst hefur verið hér á undan, vega og meta hvort og þá að hve miklu leyti getur verið hentugt að beita vélrænum aðferðum.
Almennt má segja að helst getur verið hagkvæmt að beita vélrænum þýðingum: